Orðabók Websters skilgreinir kristinn mann sem „ manneskju sem ástundar trú á Jesúm Krist, trú byggða á kenningu Jesú”. Þó þetta sé góð byrjun á skilningi á því, hvað kristinn maður er, eins og margar veraldlegar skilgreiningar, þá dugar hún ekki til að tjá hinn biblíulega sannleik á því, hvað það merkir að vera kristinn.
Orðið kristinn er notað þrisvar í Nýja testamentinu (Postulasagan 11:26; Postulasagan 26:28; Pétursbréf 4:16). Fylgjendur Jesú Krists voru fyrst kallaðir „kristnir” í Antíokkíu (Postulasagan 11:26), vegna þess að hegðun þeirra, starfsemi og mál voru eins og Krists. Það var upprunalega notað um ófrelsað fólk í Antíokkíu sem einhvers konar niðrandi auknefni til að gera grín að kristnum mönnum. Það merkir bókstaflega, „tilheyrir flokki Jesú” eða „fylgjandi Krists,” sem er mjög líkt og orðabók Websters skilgreinir það. Því miður hefur orðið „kristinn” misst mikið af merkingu sinni í tímans rás og er oft notað um mann sem er trúaður eða er gæddur miklu siðgæði í stað sanns endurfædds fylgjanda Jesú Krists. Margir sem trúa ekki á Jesúm né treysta honum telja sig kristna einfaldlega vegna þess að þeir sækja kirkju eða búa í kristnu samfélagi. En það að sækja kirkju, þjóna hinum bágstöddu eða vera góð manneskja gerir þig ekki kristinn. Eins og einhver sagði eitt sinn: „Að fara til kirkju gerir mann ekki kristinn fremur en að fara út í bílskúr gerir mann að bíl.” Að vera meðlimur kirkju, sækja guðsþjónustu reglulega og gefa til kirkjunnar gerir þig ekki kristinn.
Biblían kennir okkur að góðverkin sem við vinnum geri okkur ekki þóknanleg Guði. Í Títusarbréfi 3:5 segir að Guð frelsaði okkur ekki „vegna réttlætisverkanna sem vér höfum unnið, heldur samkvæmt miskunn sinni í þeirri laug, þar sem vér endurfæðumst og heilagur andi gjörir oss nýja.” Kristinn maður er þá maður sem er endurfæddur í Guði (Jóhannes 3:3); Jóhannes 3:7; Fyrra Pétursbréf 1:23) og hefur látið trú sína og traust á Jesú Krist. Í Efesusbréfinu 2:8 segir: Því að af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú.” Sannkristinn maður hefur iðrast synda sinna og játað trú og traust á Jesú Kristi einum. Traust þeirra er að fylgja trú eða siðareglum eða skrá hvað má og hvað má ekki.
Sannkristinn maður er manneskja sem hefur lagt trú sína og traust á persónu Jesú Krists og þá staðreynd að hann dó á krossi til að gjalda fyrir syndir okkar og reis upp aftur á þriðja degi til að öðlast sigur yfir dauðanum og færa eilíft líf öllum sem trúa á hann. Jóhannes 1:12 segir okkur: „En öllum þeim sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim er trúa á nafn hans.” Sannkristinn maður er sannarlega barn Guðs, hluti sannrar fjölskyldu Guðs, og sá sem hefur þegið nýtt líf í Kristi. Einkenni sannkristins manns er kærleikur til annarra og hlýðni við Guðs orð (Fyrsta Jóhannesarbréf 2:4,10).