Aðalmarkmið með lífi Jesú og tilgangur fyrri komu hans var að útvega og réttlæta fullkomna fyrirgefningu syndanna fyrir alla menn á öllum tímum. Hjá Guði er hvorki manngreinarálit né mismunun. Messías kom til að ávinna öllu fólki fullkomna fyrirgefningu og aðgang að hinum eina sanna Guði óháð þjóðerni eða kynkvísl og án tillits til eðlis eða stærðar syndar hvers og eins.
Guð fullkomnaði sáttargjörð milli hans og heimsins með því að tilreikna mönnum ekki syndir þeirra vegna fórnargreiðslu Messíasar. Boðið um að meðtaka fyrirgefningu syndanna og öðlast eilíft líf með Guði stendur fyrir alla menn.
Jesaja spáði fyrir um verk Messíasar þar sem hann segir: „…hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða“ og „…hann bar syndir margra.“
Þegar Jóhannes skírari sá Jesú koma til sín sagði hann: „Sjá Guðs lamb sem ber synd heimsins.“
Í fyrsta Jóhannesarbréfi Biblíunnar skrifar Jóhannes Sebedeusson nánasti lærisveinn Jesú svohljóðandi um Messías: „Hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir syndir vorar heldur líka fyrir syndir alls heimsins.“
Jesú sagði áður en hann fór á krossinn; „Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda.“
Síðustu orð Jesú Krist á krossinum áður en hann gaf upp andann voru:
„Það er fullkomnað.“
Fyrirgefningin var áunnin, algjör og fullkominn fyrir alla menn. Þessi fullkomna fyrirgefning endurspeglast í bæn Jesú á krossinum þar sem hann bað fyrir þeim sem krossfestu hann og sagði: „Faðir fyrirgefðu þeim því þeir vita ekki hvað þeir gjöra.“ Hann var bænheyrður því hann tók sjálfur á sig refsinguna fyrir þeirra syndir og fullnægði öllu réttlæti og ávann þeim ásamt öllum mönnum aðgang að fullkominni fyrirgefningu. Það skiptir því engu máli hver maðurinn eða misgjörðin er Messías átti að koma svo að allir sem vilja gætu öðlast fyrirgefningu syndanna og eilíft líf með Guði.
Þegar við þiggjum þessa fyrirgefningu ber okkur einnig að fyrirgefa af hjarta öllum sem hafa brotið gegn okkur. Þannig verður fyrirgefningin fullkomin og hjartað frjálst.
Messías fullkomnaði verk friðþægingar: Boðið stendur því fyrir alla menn; að meðtaka fyrirgefningu syndanna, að snúa sér frá þeim og ganga til samfélags við Guð og lifa í hans rérttlæti. Hver einasti maður sem heyrir boðið og vill, getur ákveðið að snúa sér frá syndum sínum. Allir geta með því móti þegið fullkomna fyrirgefningu til að lifa réttlátlega í samfélagi við hinn eina sanna Guð um alla eilífð.
Það er einfalt að þakka Guði fyrir að Messías tók á sig refsinguna fyrir syndirnar og biðja hann einlæglega um að fyrirgefa sér og segja:
Ég trúi því að Jesús Kristur hafi dáið fyrir mig og að hann hafi risið upp frá dauðum. Jesús ég bið þig um að koma inn í hjarta mitt á þessu augnabliki og fyrirgefa sérhverja synd mína. Jesús ég býð þig velkominn inn í líf mitt og ég bið þig um að taka þar völdin. Fylltu mig af anda þínum. Himneski faðir, ég þakka þér að ég er nú þitt barn.